Góðar glósur geta bætt námsárangurinn...
Það er eitthvað við það að skrifa hlutina niður sem hjálpar við það að muna þá betur. Prófaðu að skrifa niður það sem er kennt í tímum. Þessar glósur verða sjaldnast mjög fallegar og jaðra jafnvel við það að vera óskiljanlegar í lok tímans (kennarinn bíður víst ekki eftir þér á meðan þú skiptir um penna til þess að fegra glósurnar).
Það er líka mjög gott að nota styttingar og skammstafanir til að spara tíma.
Endurskrifaðu svo það sem þú skrifaðir í tímanum eftir að hann er búinn. Þá getur þú fengið útrás fyrir litagleði og skreytingar. Það er bara mikilvægt að endurskrifa glósurnar sem fyrst eftir að tíminn er búinn svo að það sé allt ferskt í minninu! Glósurnar eru oft aðeins of óskiljanlegar til að lesa þegar þú ert búinn að gleyma um hvað tíminn fjallaði.
ATH skrifaðu niður það sem kennarinn segir í tímum því hann gæti sagt eitthvað sem stendur ekki í námsefninu en hann prófar samt úr!
Þegar þú endurskrifar tímaglósurnar berðu þær þá saman við námsbókina og það sem stendur á glærunum frá kennaranum og leggðu áherslu á það sem virðist mikilvægast (kennarinn gæti hafa hintað að því hvað það er). Skrifaðu líka niður, á áberandi stað, mikilvægar orðskýringar.
Ef það eru góðar myndir í bókinni sem útskýrir efnið vel skrifaðu þá niður í glósunum hvar þær eru, svo þú finnir þær auðveldlega þegar þú ferð aftur yfir efnið fyrir próf.
Skipulag og áherslur
Gott skipulag á glósunum skiptir öllu máli. Ef glósurnar eru ekki vel skipulagðar og auðskiljanlegar þjóna þær engum tilgangi í prófalærdómnum.
Góðar fyrirsagnir og litir til að leggja áherslur hjálpa mikið. Prófaðu að nota liti á skipulagðan hátt. T.d að nota gulan yfirstrikunartúss fyrir formúlur, bleikan fyrir orðskýringar og bláan fyrir aðra mikilvæga hluti.