Nú styttist í nýtt skólaár...

Byrjaðu önnina vel

Ný önn er virkar oft eins og áramót fyrir okkur nemum og við eigum það til að setja okkur nokkurs konar áramótamótaheit eða “ný-annarheit”. Það versta er að eins og áramótaheitin um megrun og myndatöku stöndum við sjaldan við þau. Hér koma nokkur ráð sem gætu hins vegar hjálpað þér að halda réttu róli.

1. Góð aðstaða

Til að byrja önnina vel er gott að vera búinn að koma sér vel fyrir. Hvort sem þú ert ennþá í foreldrahúsum eða kominn í eigið húsnæði er mikilvægt að koma sér upp þægilegri aðstöðu til að læra. Gott skrifborð og stóll er algjört möst og auk þess góðar hirslur fyrir námsgögnin. 

2. Skólabækur

Fylgstu með því hvenær skólabókalistinn kemur inná netið og byrjaðu þá strax á því finna besta verðið á þeim. Ef þú ert snemma í því gætir þú átt séns á að kaupa þær notaðar af fyrri nemendum eða fundið þær ódýrar á netinu en þá gæti tekið smá tíma að fá þær sendar til Íslands.

3. Námslán

Til að geta byrjað önnina á góðum nótum er mjög mikilvægt að hafa fjármálin og lánamálin á kláru. Það er þess vegna mikilvægt að vera búinn að ganga frá þeim hjá bæði Lín og í bankanum áður en önnin byrjar.

4. Budget-plan

Þegar lánamálin eru klappað og kláruð er alveg jafn mikilvægt að vera meðvitaður um það hversu miklu maður má eyða í hverjum mánuði. Það getur verið gott að deila því niður á vikurnar í mánuðnum og passa vel uppá það að fara ekki fram yfir það og nota ekki kredit kortið í of miklum mæli. Hér getur þú fundið nokkur góð sparnaðarráð.

5. Græjur

Næst þarf að vera viss um að maður sé með allar nauðsynlegar græjur og forrit sem maður þarf fyrir önnina. Er tölvan í standi með office pakkann og önnur nauðsynleg forrit? Er vasareiknirinn í standi með batteríin hlaðin?

6. Nesti

Þegar að líða fer að því að skólinn byrji er gott að fara að huga að nesti (til að halda matarkostnaði í lágmarki). Ég mæli með því að fjárfesta í góðum nestisboxum í nokkrum stærðum og góðum brúsa fyrir vatn eða aðra drykki. 

7. Samgöngur

Það er mjög þægilegt að hafa það á hreinu hvernig maður ætlar að komast í og úr skóla á hverjum degi. Ef þú ætlar að taka strætó náðu þá í strætó appið og tékkaðu líka á því hvaða kort eða áskrift sé hagstæðust fyrir þig. Ef þú ætlar að nota bílinn skaltu vera búinn að athuga hvar sé best og ódýrast að leggja bílnum á meðan þú ert í tímum. 

8. Félagslíf

Það getur verið yfirþyrmandi þegar að ný önn byrjar, fullt af nýjum upplýsingum og kennarar eiga það til að stressa mann svolítið upp í tilraun til að undirbúa mann fyrir önnina. Það er samt mjög mikilvægt að gleyma því ekki að vera social og blanda geði við fólk. Taktu þátt í því sem er að gerast í félagslífinu, farðu í vísindaferðir og á böll og hafðu gaman, það hefur jákvæð áhrif á námið. Passaðu þig bara á því að finna gott jafnvægi milli námsins og félagslífsins.

 

)