Ert þú að fara að sækja um draumastarfið?

Greinagóð ferilskrá ásamt kynningarbréfi er lykillinn

Hvernig ferðu að því að næla þér í draumastarfið? Fyrsta skrefið er að sækja um. Það getur verið svolítið “tricky” að gera greinagóða ferilskrá (CV) og semja vel skrifað og hnitmiðað kynningarbréf. Áherslur í kynningarbréfi og ferilskrá eru mismunandi eftir störfum sem sótt er um. Það eru þó ákveðnar reglur sem þarf alltaf að fylgja og mig langar til að taka ykkur í gegnum grunninn að góðri umsókn hér:

Sníddu ferilskrána og kynningarbréfið að starfinu sem þú sækir um

Það er mjög mikilvægt að sníða bæði ferilskránna og kynningarbréfið að hverri einustu umsókn sem þú sendir inn. Já það getur verið mikil vinna þegar maður sækir um 20 störf en gríðarlega mikilvægt. Stór hluti ferilskráarinnar helst auðvitað oft óbreytt en smávægilegar breytingar gætu gert gæfumuninn. 

Undirbúðu þig áður en þú byrjar að skrifa

Lestu starfslýsinguna og kynntu þér fyrirtækið vel áður en þú byrjar á því að semja kynningarbréfið. Það er gott að nota að einhverju leiti sama orðaforða og fyrirtækið notar í starfslýsingunni og í lýsingunni á fyrirtækinu á heimasíðu þess. Þetta þýðir samt ekki að þú eigir að “copy-paste” það sem stendur heldur nota lýsingarnar sem innblástur þegar þú byrjar að skrifa svo að ákveðin samhljómur sé á milli þeirra og umsóknarinnar og að hún sýni grundvallarþekkingu á starfsemi fyrirtækisins. Það er líka mjög sterkur leikur að finna nafn þess sem fær umsóknina í hendurnar og ávarpa hann með nafni.

Sýndu persónuleika þinn

Það að ráða nýjan starfsmann er persónulegt ferli og þó svo að reynsla og fagmennska skiptir auðvitað miklu máli þá er líka verið að leita að einstaklingi sem passar inn í hóp á lifandi vinnustað. Það er þess vegna ekki síður mikilvægt að hafa kynningarbréfið ekki of þurrt og sýna fram á það sem gerir þig að áhugaverðum, skemmtilegum og traustverðum einstaklingi.

Þegar þú skrifar kynningarbréfið ekki telja upp of mikið af því sem nú þegar stendur í ferilskránni (hún fylgir með bréfinu). Notaðu frekar tækifærið og rökstyddu og sýndu fram á að þú hafir þá kosti og þekkingu sem atvinnuauglýsingin segir að umsækjendur þurfi að hafa.

Ferilskráin

Þegar kemur að gerð ferilskráarinnar er mikilvægt að hafa það í huga að sá sem skoðar hana hefur að öllum líkindum mjög stóran bunka af ferilskrám á borðinu hjá sér. Hann getur þar af leiðandi ekki eytt miklum tíma í hverja þeirra og þess vegna þarf hún að: 

  • vera stutt (helst bara ein blaðsíða)
  • vera hnitmiðuð
  • vera vel uppsett (best er að hafa hana í tímaröð)
  • lista þá reynslu og þekkingu sem þú hefur sem að tengist starfinu sem þú ert að sækja um

Hér er það sem maður þarf að velja og hafna því að ef maður listar upp alla þá starfsreynslu og öll þau námskeið sem maður hefur í bankanum þá er maður fljótt komin upp í 4-5 bls. Þess vegna er mikilvægt að átta sig á því hvað af því skiptir máli þegar tekið er tillit til starfslýsingarinnar og þess sem er farið fram á að umsækjendur búi yfir.

Litir

Litir geta gert mikið fyrir ferilskránna og látið þína ferilskrá standa uppúr bunkanum. En það er engu að síður mikilvægt að nota þá á réttan hátt, hafa í huga hvaða þýðingu hver litur hefur og hvaða litir fara vel saman. Blár er t.d. oft tengdur við traust og áreiðanleika en rauður við ástríðu og orku.

Viðbrögð fólks við litum er auðvitað persónubundin en það er mikilvægt að hafa þessa hluti í huga og nota litina skynsamlega. Texti ætti t.d. alltaf að vera svartur á hvítum bakrunni því að þó svo að ferilskráin líti geggjað vel út á skjánum í lit þá veistu aldrei nema að hún verði prentuð út í svart-hvítu og þá gæti eitthvað af textanum tapast og orðið ólesanlegur. 

Letur

Það skiptir máli að velja rétt letur þ.e. að velja auðlesanlegt letur sem stendur samt sem áður uppúr. Það er mjög gott að nota sans-serif letur þar sem það er yfirleitt auðlesnara en þú getur leikið þér meira að fyrirsögnum og haft þær skrautlegri í letri sem þér finnst flott. 

Ég mæli t.d. með:

  • Helvatica
  • Gill Sans
  • Roboto
  • Calibri
  • Arial
  • Safran Book

Uppsetning

Þegar að það kemur að uppsetningu á ferilskránni er mjög mikilvægt að hafa í huga hverskonar fyrirtæki og innan hvaða geira þú ert að sækja um og sníða umsóknina eftir því. Í sumum tilvikum er betra að hafa hana mjög hefðbundna á meðan önnur tilvik kalla á meiri frumleika og hönnun.

 

Mundu svo að setja mikilvægar upplýsingar eins og símanúmer og netfang efst með nafni og mynd! Það gæti líka verið góð hugmynd að láta fylgja með slóð að t.d. LinkedIn prófílnum þínum.  

)